Voru klæddir í flotgalla - aðstæður nokkuð erfiðar

  • Thyrla_stjornklefi

Sunnudagur 25. nóvember 2012 kl. 23:40

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF lenti í Reykjavík kl.22:40 í kvöld eftir að áhöfn hennar bjargaði tveimur skipverjum fiskibátsins Jónínu Brynju sem strandaði NV- af Straumnesi um klukkan sjö í kvöld.

Að sögn flugstjóra þyrlunnar voru mennirnir staðsettir um eina sjómílu N- af Straumnesvita. Fundust þeir strax þegar á svæðið var komið en þeir voru klæddir flotgöllum í um 10 metra breiðri fjöru og  bátur þeirra brotinn í stórgrýttu flæðarmálinu. Aðstæður voru nokkuð erfiðar, mjög hvasst, 25-30 hnútar og gekk á með dimmum éljum. Fyrir ofan fjöruna er þverhnýpt klettabelti.

Sigmaður/stýrimaður þyrlunnar seig niður til mannanna og voru þeir svo hífðir upp í björgunarlykkju. Voru þeir komnir um borð í þyrluna kl. 20:49 og var þá haldið á Ísafjörð þar sem mennirnir fóru til læknisskoðunar. Þyrlan hélt þá til Reykjavíkur.

Hér er myndskeið sem áhöfn þyrlunnar tók á farsíma og sýnir björgunina