Þyrla LHG aðstoðar lögreglu við eftirlit

  • Eftirlit

Mánudagur 26. nóvember 2012

Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 12:30 í gær og óskaði eftir aðstoð þyrlu LHG við eftirlit með rjúpnaskyttum innan bannsvæðis í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Var þyrla Landhelgisgæslunnar þá á leið í æfingaflug og var ákveðið að verða við þessari ósk enda er eitt af lögbundnum hlutverkum LHG að aðstoða við löggæslu á landi.

Fór þyrlan í loftið kl. 13:27 og var lögreglumaður sóttur á Selfoss áður en farið var í eftirlit um þjóðgarðinn. Komið var að tveimur mönnum við veiðar innan bannsvæðisins og voru veiðileyfi þeirra gerð upptæk.

Reglulega hefur lögregla samband við Landhelgisgæsluna varðandi aðstoð við verkefni á landi og er ekki óalgengt að æfingaflug flugdeildar sé hægt að nýta í þeim tilgangi.  Í lögum um Landhelgisgæslu Íslands segir m.a. að auk verkefna við löggæslu og björgun á hafi úti gegni  LHG öðrum verkefnum, s.s. aðstoð við lögreglu, almannavarnir og önnur yfirvöld.

Mynd úr safni LHG