Varðskipið Týr við eftirlit á loðnumiðum
Miðvikudagur 16. janúar 2013
Varðskipið Týr hefur að undanförnu verið við eftirlit út af NA-landi og hefur fylgt loðnuflotanum eftir . Áhöfnin hefur farið til eftirlits um borð í fjögur loðnuskip, þar af eitt grænlenskt en það er eina erlenda skipið sem hefur að undanförnu verið að veiðum hér við land. Í gær hafði ekkert norskt loðnuskip sótt um leyfi til veiða en í dag barst LHG listi frá Fiskistofu yfir skip þeirra sem hugsanlega koma á miðin á næstunni.
Að jafnaði eru um 200-300 skip á sjó innan lögsögu Íslands og hefur skipaumferð verið með hefðbundnum hætti. Loðnuflotinn er að veiðum um 70 sml. ANA- af Langanesi en fiskiskipaflotin er annars dreifður um grunnslóð, nokkrir togarar eru á Barðagrunni og Kópnesgrunni. Alls hafa átta skyndilokanir verið gefnar út frá áramótum og eru sex ennþá í gildi, þrjár í Faxaflóa, ein út af Breiðafirði og tvær fyrir Norðurlandi.
Í reglugerð um loðnuveiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 2012/2013 segir:
- Norskum skipum er heimilt að veiða samtals 34.511 lestir í efnahagslögsögu Íslands og er þeim aðeins heimilt að stunda loðnuveiðar í efnahagslögsögu Íslands til 15. febrúar 2013 og norðan við 64°30´N.
- Færeyskum skipum er heimilt að veiða í 10.844 lestir í fiskveiðilandhelgi Íslands.
- Grænlenskum skipum er heimilt að veiða 33.000 lestir í fiskveiðilandhelgi Íslands til 15. febrúar 2013, norðan 64°30´N. Eftir 15. febrúar og sunnan 64°30´N nær þessi heimild einungis til veiða á 23.000 lestum.
Sjá LHG frétt um loðnuveiðar frá 2012
Sólveig Helga Hjaltadóttir háseti og Snorre Greil stýrimaður v/s Týr ásamt skipverja
Myndir áhöfn v/s Týr
Mynd fengin frá Skessuhorn.is