Skrifborðsæfing vegna sjóslysa við suðvesturströndina
Fimmtudagur 17. janúar 2013
Í dag verður haldin skrifborðsæfing í tengslum við gerð viðbragðsáætlunar vegna sjóslysa við suðvesturströnd Íslands og tekur Landhelgisgæslan þátt í æfingunni með fjarskiptum í gegnum stjórnstöð, varðskipið Þór og þyrlunni TF SYN. Undir áætlunina falla aðgerðir frá þremur höfnum; Vestmannaeyjahöfn, Þorlákshöfn og Landeyjahöfn. Markmið æfingarinnar er að láta reyna á stjórnkerfi áætlunarinnar, fjarskipti og samskipti milli stjórnstöðva.
Á æfingunni verður tekist á við þá sviðsmynd að Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi hlekkist á við innsiglinguna í Landeyjahöfn með 350 farþega um borð. Eftirfarandi stjórnstöðvar verða virkjaðar í æfingunni: Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð, Stjórnstöð LHG-Vaktstöð siglinga, aðgerðarstjórn í Vestmannaeyjum, aðgerðarstjórn á Hellu, aðgerðarstjórn á Selfossi og vettvangsstjórn í Landeyjahöfn. Allar þessar stjórnstöðvar verða skipaðar fulltrúum viðbragðsaðila, lögreglu, björgunarsveitum, slökkviliði, Landhelgisgæslunni, Rauða kross Íslands, heilbrigðisstofnunum og fulltrúum eftirlitsstofnanna. Einnig tekur óhappanefnd skipafélagsins Eimskip þátt í æfingunni.
Að skipulagi æfingarinnar koma fulltrúar frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslunni, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Siglingastofnun, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Landspítalanum og skipafélaginu Eimskip.
Myndirnar af Landeyjarhöfn eru teknar árið 2010 með eftirlitsbúnaði flugvélarinnar TF-SIF