TF LIF sótti tvo sjúklinga á Ísafjörð

  • GNA2

Miðvikudagur 30. janúar 2013

Landhelgisgæslunni barst kl. 14:11 í gær beiðni frá lækni á Ísafirði þar sem var óskað eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar myndi flytja tvo alvarlega veika sjúklinga til Reykjavíkur. Ekki hefur verið mögulegt fyrir flugvélar að lenda á Ísafirði síðastliðna daga og var talið nauðsynlegt að sjúklingarnir yrðu sendir með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Eftir samtal við flugstjóra og þyrlulækni var ákveðið að þyrlan færi í flugið og fór TF LIF í loftið kl. 15:12.

Flogið var út af Snæfellsnesi, Bjargtöngum og nær landi í Ísafjarðardjúpi til að losna við mikla sviptivinda frá fjalllendinu. Þegar komið var inn á Ísafjarðardjúp mætti þyrlunni blindbylur sem svo lægði þegar komið var inn á Skutulsfjörð. Lent var Ísafjarðarflugvelli kl. 17:14 þar sem sjúklingar voru fluttir um borð í þyrluna og undirbúnir fyrir brottför. Farið var í loftið að nýju kl. 17:46 og flogið beint á Reykjavíkurflugvöll þar sem var lent kl. 19:33. Gekk flugið ágætlega og voru sjúklingar fluttir með sjúkrabíl á Landspítalann.