Þyrlu var snúið við þegar björgunarsveitir fundu jeppa

  • _MG_0632

Sunnudagur 10. febrúar 2012

Mikill erill hefur verið í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í nótt og í morgun vegna aðstoðarbeiðna, bæði til sjós og lands. Upp úr klukkan níu hafði bátur, sem staddur var norður af Gjögurtá nyrst í Eyjafirði, samband og sögðu skipverjar að bilun væri í stýrisbúnaði. Var þá haft samband við björgunarbát Slysavarnafélagsins Landsbjargar, BB Jón Kjartansson frá Húsavík, sem hafði nýverið látið stjórnstöð vita að þeir hefðu lagt úr höfn á Húsavík. Um klukkan 12:45 kom Jón Kjartansson að bátnum og fylgdu honum til Akureyrar, þangað sem þeir komu heilu og höldnu um kl. 13:35.

Um klukkan 12:30 hafði síðan bátur á leið fyrir Garðskaga samband vegna slæms veðurs og sjólags á svæðinu.  Ákveðið var að fylgjast sérstaklega með ferð hans fyrir Garðskaga og til Sandgerðis þangað sem hann kom kl. 14:09.

Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra hafði samband við stjórnstöðina rétt fyrir klukkan tvö í nótt og óskaði eftir aðstoð þyrlu vegna fólks í tveimur jeppum sem taldir voru í námunda við Skjaldbreið. Björgunarsveitir höfðu þá verið við leit en fundu ekki jeppana. TF-LIF fór í loftið um klukkan þrjú en tuttugu mínútum síðar var aðstoð þyrlunnar afturkölluð þar sem björgunarsveitir höfðu fundið jeppana og komu þeim til hjálpar.

Um klukkan hálf fimm í morgun hafði bátur samband sem staddur var um 5 sjómílur norður af Skagatá, en skipstjórinn taldi að eitthvað væri í skrúfunni. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði þegar út björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Sigurvin frá Siglufirði, sem fór bátnum til aðstoðar. Sigurvin kom að bátnum um klukkan sjö og hóf að draga hann áleiðis til Siglufjarðar.  Bátarnir komu til Siglufjarðar um klukkan 11.