Eikarbátur í vandræðum á Þistilfirði - varðskipið Þór fylgdi bátnum til hafnar

  • Þor_Akureyri

Miðvikudagur 13. febrúar 2013

Landhelgisgæslunni barst kl. 01:07 í nótt beiðni um aðstoð frá 25 tonna eikarbátnum Ramónu en kominn var leki að bátnum og lensidælur bátsins virkuðu ekki. Einn maður var um borð í bátnum sem var staðsettur á Þistilfirði eða um 14 sjómílur frá Þórshöfn. Landhelgisgæslan kallaði út Gunnbjörgu, björgunarskip SVFL á Raufarhöfn og var haft samband við varðskipið Þór sem var staðsett um 30 sjómílur frá vettvangi. Skipstjórinn fór í flotgalla en erfitt fyrir hann að athafna sig og talsverður sjór var kominn í bátinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð út og fór hún í loftið kl. 02:23.

Þegar Gunnbjörg kom að Ramónu gekk illa vegna veðurs að að koma mannskap og dælu yfir í bátinn og var ákveðið öryggisins vegna að bíða eftir aðstoð varðskipsins Þórs sem tók við vettvangsstjórn. Varðskipið Þór tilkynnti kl. 03:47 að þrír varðskipsmenn væru komnir um borð í fiskibátinn og hafin væri dæling en þá var töluverður sjór kominn í vélarrúmið. TF-LÍF þyrlu Landhelgisgæslunnar var þá snúið við og björgunarskip SVFL hélt til Raufarhafnar. Varðskipið Þór fylgdi síðan bátnum til hafnar á Raufarhöfn en þangað var komið upp úr kl. 06:00 í morgun.