Samæfing Landhelgisgæslunnar fór fram í dag

  • IMG_4532

Föstudagur 1. mars 2013

Í dag var haldin samæfing stjórnstöðvar, varðskips og loftfara Landhelgisgæslunnar en í henni tóku þátt varðskipið Þór, flugvélin Sif og þyrlurnar Líf og Gná ásamt stjórnstöð. Markmið æfingarinnar var að æfa framkvæmd leitar og björgunar á sjó í samræmi við leiðbeiningar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um leit og björgun -  IAMSAR, þ.e. samskipti björgunareininga og  björgunaraðferðir.

Í æfingunni voru æfð viðbrögð við þeim aðstæðum þegar fiskibátur sem staðsettur var um 3 sml VNV af Öndverðarnesi hafði samband við stjórnstöð vegna bilunar í AIS ferilvöktunarbúnaði. Var ákveðið að hann hefði aftur samband við stjórnstöð 6 klst síðar til að láta vita af staðsetningu en þá hefði hann átt að vera farinn að nálgast sjö bauju Reykjavíkurhafnar. Þegar ekki hafði heyrst frá bátnum og ekki náðist í hann voru einingar Landhelgisgæslunnar kallaðar út.  Varðskipið Þór var staðsett á Stakksfirði og sigldi það samstundis að stysta punkti áætlaðrar siglingaleiðar bátsins, flugvélin Sif flaug hraðferð eftir siglingaleið bátsins en þyrlurnar Líf og Gná flugu leitarferla og hófu leit á sitt hvorum leitarpunkti en u.þ.b. 70 sjómílur voru á milli vélanna þegar leit hófst. 

LIF-og-GNA
Þyrlurnar klárar fyrir flugtak.

Villi-og-Frikki
Vilhjálmur Óli Valsson og Friðrik Höskuldsson yfirstýrimenn TF-SIF fara yfir áætlanir.

Slæmt skyggni var á svæðinu og sinntu varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar einnig hlutverki flugleiðsögumanna og leiðbeindu þeir þyrlunum á flugleiðinni þegar þörf var á og sinntu einnig skipulagi og samskiptum við aðra viðbragsaðila sem í raunverulegum aðstæðum væru einnig nærstaddir bátar og Slysavarnarfélagið Landsbjörg.

IMG_0103

Þegar leið á æfinguna barst tilkynning frá flugvél í aðflugi sem tók eftir björgunarbát á Faxaflóa. Var þá þyrlum Landhelgisgæslunnar beint að staðnum og fann fljótlega björgunarbát með tveimur dúkkum sem varðskipið Þór lagði út snemma í morgun.

Þjálfun sem þessi er mjög mikilvæg fyrir leitar- björgunareiningar Landhelgisgæslunnar og voru allir sáttir að æfingu lokinni.

Myndin til hægri sýnir þegar TF-LIF tók eldsneyti frá varðskipinu Þór í æfingunni.

Stjornstod
Úr stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.

Gummi
Guðmundur Ragnar stýrimaður/sigmaður fer um borð

Stjani-SITREP
Kristján Þ. Jónsson sérfræðingur í leitar- og björgunarskipulagi IAMSAR fer yfir helstu áhersluatriði

Gummibatsrek

Hér er mynd úr SAR-PC forriti sem notað er í aðgerðum sem þessum sem sýnir rekútreikning fyrir gúmmíbjörgunarbát og mann í sjó miðað við ákveðinn rektíma. Rauðu pílurnar og hringirnir sýna líklegasta reksvæði frá upphafsstað. Gulu punktarnir sýna svo hvar gúmmíbáturinn og dúkkan fundust og eru staðirnir vel innan skekkjumarka líklegasta fundarstaðar, þ.e. því sem næst á miðju leitarsvæði. Inn í rekforritið eru settar allar þær upplýsingar sem máli geta skipt s.s. vindur og straumur, hvers konar björgunarbátur, upphafstími reks og áætlaður leitareiningar koma á svæðið.


IMG_0104