Þrjú þyrluútköll á tólf klukkustundum

  • GNA2

Mánudagur 4. mars 2013

Það var í nógu að snúast hjá stjórnstöð og þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar um helgina. M.a. bárust þrjú útköll á tólf klukkustundum. Á laugardagskvöld voru þyrlurnar kallaðar út tvisvar og var fyrra útkallið eftir bílveltu á Þingskálavegi við Svínhaga þar sem um var að ræða einn slasaðan.  Þegar þyrlan var við það að lenda við Landspítalann kl. 21:59 barst að nýju beiðni um útkall vegna bifreiðar sem festist í Sandavatni suður af Langjökli. Tveir voru komnir á þak bifreiðarinnar  og óskuðu eftir aðstoð. Þegar á vettvang kom var ekki hægt að hífa um borð í þyrluna vegna nálægðar háspennulína og lenti því þyrlan og þyrluáhöfnin aðstoðaði af landi, stýrimaður sem klæddur var sjógalla óð út í ána með tengilínu og aðstoðaði fólkið við að komast í land þar sem flugmaður og spilmaður/flugvirki tóku á móti þeim.  Lenti þyrlan við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 00:25 og sjúkrabifreið flutti fólkið á sjúkrahús til athugunar.

 

Á sunnudagsmorgunn óskaði læknir á Ísafirði eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar til sjúkraflutnings vegna alvarlegra veikinda og fór þyrla TF-LÍF í loftið kl. 12:12 og lenti á Ísafjarðarflugvelli kl. 13:25.  Lent var í Reykjavík kl.15:15 og flutti sjúkrabifreið sjúkling á Landspítalann.  Einnig kom inn til stjórnstöðvar hugsanleg útkallsbeiðni eftir óhapps sem varð í nágrenni Dalvíkur en ekki varð úr þeirri aðstoð.