Eftirgrennslan hófst að bát sem datt úr ferilvöktun - mikilvægt að hlusta ætíð á neyðarrásina

  • _MG_0566

Miðvikudagur 13. mars 2013

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hóf í morgun eftirgrennslan að fiskibát með einn mann um borð sem datt úr ferilvöktun. Varðstjórar reyndu að ná sambandi við bátinn í gegnum talstöðvar og síma en það bar ekki árangur, ekkert var vitað um afdrif bátsins. Haft var samband við nokkur símanúmer sem eru skráð á bátinn og reyndist þ.a.m. vera símanúmer hjá aðstandanda skipverjans sem varð að vonum órólegur  við að heyra að verið væri að grennslast fyrir um bátinn. Sem betur fer tókst að ná sambandi við bátinn og málið endaði farsællega.

Atvik þetta er ekki einsdæmi og brýna því varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fyrir sjófarendum að hafa kveikt á og fylgjast með ferilvöktunarbúnaði auk þess að hlusta ætíð á neyðarrás 16.