Líkur á að draugaskipið sé enn ofansjávar

  • Lyuobv-Orlova-&-charlene-Hunt-(Jan-20,-2013)

Miðvikudagur 13. mars 2013

Upplýsingar voru að berast Landhelgisgæslunni í dag að annar neyðarsendir sem tilheyrir draugaskipinu Luybov Orlova hafi farið í gang þann 8. mars s.l. og er hann enn að senda frá sér staðsetningarupplýsingar.  Þessar staðsetningar eru ekki langt frá þeim stað þar sem annar neyðarsendir frá skipinu fór í gang 25. febrúar.  Núverandi staðsetning sendisins er 685 sjómílur aust-norð-austur af Nýfundnalandi en staðsetning sendisins undir lok febrúar var um 700 sjómílur aust-norð-austur af Nýfundnalandi. 

Í eftirlitsflugi Kanadamanna í gær 12. mars kom áhöfn eftirlitsvélarinnar auga á björgunarbát sem líkist þeim sem voru um borð í Luybov Orlova.  Sá bátur sást í raun á þeim stað þar sem síðast var vitað um skipið í byrjun febrúar.  Það eru næstum 400 sjómílna munur á þessari staðsetningu og staðsetningum neyðarsendanna.  

Leiða má líkum að því að björgunarbáturinn hafi farið fyrir borð fljótlega eftir að síðast var vitað um skipið, eða þegar það var statt í námunda við Flæmska Hattinn austur af Nýfundnalandi.  Sjálfsagt hefur hann fyllst af sjó og því er rekið á honum lítið vegna vindsins.  Skipið sjálft tekur á sig mikinn vind og það getur því rekið mun hraðar. 

Miðað við það að annar neyðarsendir fór í gang hálfum mánuði á eftir þeim fyrri eykur líkur á því að skipið sé enn ofansjávar.  Það getur m.a. stafað af því að gúmmíbjörgunarbátar sem eru í hylkjum á skipinu eru að falla fyrir borð og blásast upp. Við það fara neyðarsendar sem eru inn í þeim í gang.  Ef svo er þá er það staðsett á svipuðum slóðum og fyrir 2 vikum síðan, þ.e. tæplega 700 sjómílur aust-norð-austur af Nýfundnalandi, rúmlega 500 sjómílur suð-austur af Hvarfi á Grænlandi og u.þ.b. 900 sjómílur suð-vestur af Írlandi.  Hann er þ.a.l. um 900 sjómílur suðsuðvestur af Íslandi.

Gervitunglamyndir sem teknar voru 1. mars s.l. gáfu til kynna óþekkt fyrirbæri á þessum slóðum en ekkert slíkt hefur þó sést síðan þá.  Strandgæslu yfirvöld beggja vegna Atlantshafsins fylgjast með gangi mála en eins og áður hefur komið fram varast þessir aðilar sem og Landhelgisgæslan að fullyrða um afdrif skipsins þar sem um marga óvissuþætti og möguleika er að ræða. 

Til að gera grein fyrir fjarlægðum þá eru þessar staðsetningar neyðarsendanna það langt suður af Íslandi að TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar gæti flogið á svæðið en hefði engan tíma aflögu fyrir eftirgrennslan og leit áður en halda yrði til baka.

Mynd: Hafnaryfirvöld í St. Johns á Nýfundnalandi

Kort: Aðgerðasvið Landhelgisgæslunnar.

Lubova-13mars2013
Smellið á mynd til að stækka og opna í pdf.