TF-SIF í sjúkraflug til Færeyja

  • SIF_eldgos_ArniSaeberg

Föstudagur 15. mars 2013

Landhelgisgæslunni barst í morgun beiðni frá heilbrigðisyfirvöldum í Danmörku um að flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF myndi sækja til Færeyja alvarlega veikan mann sem nýverið slasaðist í bílslysi. Þar sem aðrir aðilar gátu ekki tekið að sér sjúkraflugið var leitað til Landhelgisgæslunnar en nauðsynlegt var fyrir sjúklinginn að gangast undir læknismeðferð hér á landi. TF-SIF flaug til Færeyja um hádegið og lenti í Færeyjum tveimur tímum síðar. Með í fluginu voru þrír heilbrigðisstarfsmenn frá Landspítalnum. Var farið að nýju í loftið kl. 17:30 með sjúkling og einn aðstandanda auk heilbrigðisstarfsmanna og lent í Reykjavík kl. 19:30. Sjúklingur var þá fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús til aðhlynningar.

Gekk flugið mjög vel og
lýstu heilbrigðisstarfsmenn sem höfðu umsjón með þessu sjúkraflugi yfir almennri ánægju með flugið og aðbúnað.  Að sköpum hefði skipt að hafa svo vel búna flugvél til að flytja sjúklinginn.  Rýmið í vélinni gerir öllum sem að málum koma auðveldara um vik að sinna sjúklingi og mikill kostur er fyrir heilbrigðisstarfsfólk að geta staðið upprétt við þau verk sem þarf að sinna.