Þyrla LHG sótti skipverja sem slasaðist

  • _33A5909

Þriðjudagur 19. mars 2013

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNA sótti í gærkvöldi skipverja sem slasaðist um borð í togara sem var staðsettur um 20 sjómílur norðvestur af Grundarfirði. Beiðni um aðstoð þyrlunnar barst kl. 21:35 en þá var þyrlan við æfingar í Skjaldbreið og var strax flogið á staðinn. Komið var að skipinu kl 22:28 um 11 sjómílur norður af Ólafsvík og sigu stýrimaður og læknir niður í togarann ásamt börum og búnaði. Fór þyrlan að því loknu til eldsneytistöku á Rifi. Hinn slasaði var undirbúinn fyrir flutning og hýfður um borð í þyrluna upp úr kl. 23:00. Flogið var beint á Landspítalann í Fossvogi þar sem var lent kl. 00:16.