Sprengjusérfræðingar eyddu Pikrinsýru sem var orðin sprengifim

  • Pikrinsyra

Þriðjudagur 16. apríl 2013

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru í dag fengnir til að eyða talsverðu magni af Pikrinsýru sem var útrunnin og því hættuleg. Pikrinsýra (picrid acid) er notuð á rannsóknastofum og verður efnið að sprengiefni þegar það er í þurru ástandi. Sprengjusérfræðingar LHG gerðu efnið öruggt til flutnings og var það síðan fært til eyðingar. Ef komið er að að efni sem þessu sem er gamalt eða byrjað að kristallast skal ekki undir neinum kringumstæðum snerta, færa til eða reyna opna umbúðirnar heldur hafa samband við sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar. 

Pikrinsýra er flokkuð sem sprengifimt og eitrað efni samkvæmt reglugerð 236/1990 um merkingar á hættulegum efnum. Hún telst jafnframt sprengifim í flutningi samkvæmt alþjóðareglum um flutninga á vegum og sjó ef vatnsmagn í henni er minna en 30%.

Pikrinsýra sem notuð er á rannsóknarstofum inniheldur venjulega meira en 30% vökva. Er hún þá oftast með hættumerkingunni eldfimt eða án hættumerkinga. Þó kemur oftast fram á umbúðunum, að hún sé sprengifim, ef hún nær að þorna (hættusetning H1 sprengifimt sem þurrefni). Við notkun og geymslu á Pikrinsýru getur vatnsmagnið í umbúðunum minnkað og hún breytist þá í sprengifimt efni. Þetta á sérstaklega við ef kristallar myndast í vökvanum eða í skrúfgangi í tappa. Þetta gerir það að verkum að þetta efni er sérlega varhugavert  sem spilliefni og þarfnast sérstakra varúðarráðstafana.

Mynd úr safni LHG.