Landhelgisgæslan brýnir fyrir sjómönnum að hlusta á neyðarrás 16
Miðvikudagur 15. maí 2013
Nú þegar strandveiðar eru komnar í fullan gang hafa allnokkur tilfelli komið upp þar sem erfitt hefur verið að ná í báta sem eru að veiðum en þeir eiga að nota neyðarrás 16 á VHF og ber skylda til að hafa hana opna. Einnig hefur verið erfitt að ná í farsíma um borð.
Er slíkt afar bagalegt þegar Landhelgisgæslan þarf nauðsynlega að kalla á aðstoð fyrir báta sem lenda í vandræðum á sama svæði. Allnokkur slík atvik hafa komið upp. Í gær fékk bátur í skrúfuna við Snæfellsnes, rak hratt að landi og óskaði eftir aðstoð. Þrátt fyrir ítrekuð köll á rás 16 og hringingar í farsíma náðu varðstjórar í stjórnstöð ekki báta á svæðinu þrátt fyrir að á svæðinu væri ágæt sjósókn. Jákvætt er að í mörgum tilfellum virðast bátarnir halda hópinn sem eykur til muna öryggi þeirra.
Klukkan níu í morgun voru rúmlega sjöhundruð bátar á sjó, af þeim eru 23 sem greiningardeild Landhelgisgæslunnar þarf að hafa samband við þar sem áhöfn er ekki lögskráð.