Varðskip, þyrla og sjóbjörgunarsveitir kallaðar út

  • Reynir_Thor

Mánudagur 10. júní 2013

Þyrla, varðskip og sjóbjörgunarsveitir SL á Vestfjörðum voru kallaðar út um kl. 16:00 í dag eftir að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði árangurslaust reynt að ná í fiskibát sem hvarf úr ferilvöktun og svaraði ekki uppköllum varðstjóra Landhelgisgæslunnar á kall- og neyðarrásinni, rás 16.

Báturinn var staddur í mynni Dýrafjarðar þegar hann datt út úr ferilvöktunarkerfinu, en undir þverhníptum björgum með ströndum geta verið fjarskipta- og ferilvöktunarskuggasvæði. Loks náðist samband við bátinn um kl. 17:00 en þá var varðskip statt skammt frá svæðinu auk þess sem þyrla var við að fara í loftið. Þá voru einnig björgunarsveitir í þann mund að hefja leit.

Landhelgisgæslan brýnir enn og aftur fyrir sjófarendum að halda skyldubundna hlustvöktun á neyðar- og kallrásinni rás 16.