Þyrla kölluð út vegna manns í sjónum í Reynisfjöru

  • GNA2

Fimmtudagur 20. júní 2013

Landhelgisgæslunni barst kl. 18:04 tilkynning frá Neyðarlínunni um að maður hefði lent í sjónum í Reynisfjöru við Vík í Mýrdal. Samstundis var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út og og fór TF-GNA Í loftið frá Reykjavík kl. 18:28. Lögregla var þá komin á staðinn og björgunarsveitir á leiðinni.

Maðurinn náði að synda að klettum við fjöruna og kl. 18:46 var staðfest að björgunarsveitarmaður væri kominn að manninum. Einkaþyrla var á svæðinu og náði hún að lenda hjá manninum og flytja hann í land þar sem sjúkrabifreið tók við honum TF-GNA var þá snúið aftur til Reykjavíkur þar sem ekki var talin þörf á að flytja manninn á sjúkrahús í Reykjavík heldur fór hann til skoðunar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vík.