Björgunaraðgerðir Þórsnes II gengu greiðlega
Fimmtudagur 27. júní 2013 kl. 21:30
Samkvæmt upplýsingum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar losnaði Þórsnes II af strandstað kl. 21:19 með aðstoð togarans Helga SH 135. Dráttartaug var komið fyrir milli skipanna og gengu björgunaraðgerðir greiðlega. Ekki varð vart við olíumengun frá svæðinu og siglir Þórsnes nú undir eigin vélarafli til Stykkishólms.
Landhelgisgæslan hafði umsjón með vettvangsstjórn á strandstað Þórsnes II við Skoreyjar á Breiðafirði og var unnið í nánu samráði við lögregluna, Umhverfisstofnun og Slysavarnarfélagið Landsbjörgu.
kl. 20:30
Stýrimaður Landhelgisgæslunnar var um klukkan átta í kvöld fluttur um borð í togarann Helga SH 135 sem mun freista þess að ná Þórsnesi II af strandstað á háflóði upp úr klukkan tíu í kvöld. Togarinn Helgi SH 135 er 143 tonn og 900 hestöfl að stærð.
Björgunarskip og bátar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar verða einnig á staðnum til aðstoðar auk þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti fulltrúa Umhverfisstofnunar og Olíudreifingar á staðinn. Mengunarvarnagirðing er komin um borð í björgunarbát SL og verður hún notuð á strandstað ef þörf krefur.
Varðskipið Týr er auk þess á leið á staðinn og verður til taks síðar í kvöld.
kl. 11:30
Landhelgisgæslunni barst kl. 10:30 beiðni um aðstoð þyrlu eftir að Þórsnes II, kræklingavinnsluskip, með níu manns um borð, strandaði við Skoreyjar, norður af Stykkishólmi. Einnig var haft samband við nærstödd skip og kallaðar út björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á norðanverðu Snæfellsnesi.
TF-GNA fór í loftið kl. 10:51 en örfáum mínútum síðar var útkallið afturkallað þar sem búið var að bjarga skipverjum um borð í þrjá hraðskreiða björgunarbáta, svokallaðir ribbáta frá Stykkishólmi. Gekk björgunin vel og ekki var talin þörf á þyrlu. Tveir björgunarbátar frá SL voru enn á svæðinu til vöktunar.
Myndir frá áhöfn þyrlu LHG
.