Umferðar- og hálendiseftirlit með þyrlu LHG

Mánudagur 1. júlí 2013

Þyrla Landhelgisgæslunnar var um helgina til aðstoðar lögreglunni við umferðar- og hálendiseftirlit. Farið var til umferðareftirlits með lögreglunni í Stykkishólmi,  frekar lítil umferð var um Snæfellsnes meðan á eftirlitinu stóð en tveir ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur.

Einnig var farið í hálendiseftirlit með lögreglunni í Borgarnesi. Flogið var um Kaldadal, yfir Þjófakróka, Langjökul og Þjófadal, Hveravelli og norður fyrir Hofsjökul að Ingólfsskála. Þaðan var fylgt lokuðum fjallvegum að Öskjuvegi og suður að Nýjadal. Ekki þurfti að hafa afskipti af ferðamönnum á svæðinu þar sem þeir  voru allir staðsettir á vegum, slóðum og opnum leiðum innan hálendisins.

Mynd LHG/Gassi