Eldur kom upp í fiskibát NV- af Garðskaga

  • _MG_0566

Fimmtudagur 4. júlí 2013

Eldur kom upp í fimm tonna fiskibát, með einn mann um borð þegar hann var staddur um 15 sjómílur NV-af Garðskaga. Landhelgisgæslunni barst neyðarkall frá bátnum kl. 16:19 og var samstundis óskað eftir aðstoð nærstaddra skipa og báta og héldu tveir fiskibátar strax á staðinn. Áætluðu þeir 10-15 mínútna siglingu á vettvang.

Skipverji bátsins brást hárrétt við þegar eldurinn kviknaði og lokaði öllum aðkomuleiðum að eldinum og virtist það hafa áhrif á útbreiðslu hans. Fiskibátarnir komu nær samstundis á staðinn eða kl. 16:49 og virtist þá ástand um borð vera stöðugt, manninn sakaði ekki og var ákveðið að annar báturinn tæki hann í tog áleiðis til Sandgerðishafnar og sækist ferðin vel.

Björgunarbátar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Njörður Garðarsson úr Reykjanesbæ, Þorsteinn úr Sandgerði og Gunnjón úr Garðinum voru einnig kallaðir út og héldu á vettvang. Auk þess var björgunarskipið Einar Sigurjónsson úr Hafnarfirði sett í viðbragðsstöðu og var það tilbúið að fara með slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og búnað til aðstoðar. Hafa nú björgunarbátar SL slegist í för með fiskibátunum en aðrar björgunareiningar voru afturkallaðar.

Mynd úr stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/Vaktstöð siglinga - Árni Sæberg.