Erill hjá Landhelgisgæslunni að undanförnu
Mánudagur 29. júlí 2013
Talsverður erill hefur verið hjá Landhelgisgæslunni að undanförnu. Þyrla var kölluð út í dag eftir vélsleðaslys á Langjökli, einnig var í nótt alvarlega veikur sjómaður sóttur um borð í fiskiskip sem staðsett var suðvestur af Reykjanesi. Gott veður var á vettvangi og gekk vel að hífa manninn um borð í þyrluna sem flutti hann til Reykjavíkur. Á laugardagskvöld óskaði læknir á Norðfirði eftir að þyrla yrði kölluð út í bráðan sjúkraflutning þar sem ekki var mögulegt fyrir sjúkraflugvél að lenda á svæðinu vegna þoku. TF-LÍF fór í loftið kl. 00:55 og lenti við skíðasvæðið í Oddskarði kl. 03:02 þar sem sjúkrabíll og björgunarsveitarmenn tóku á móti þyrlunni. Var sjúklingur fluttur beint yfir í þyrluna og var síðan haldið til Reykjavíkur þar sem lent var við Landspítalann í Fossvogi kl. 05:07.
Á sunnudag voru tveir sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fluttir með þyrlu til Grímseyjar eftir að tilkynning barst um torkennilegan hlut á svæðinu. Eftir að hafa fengið senda mynd af hlutnum var talið nauðsynlegt að kanna hlutinn á vettvangi. Reyndist vera um að ræða rússneskt hlustunardufl en þau voru algeng á kaldastríðsárunum. Talið er að duflið hafi legið í fjörunni í um tvær vikur. Sprengjusérfræðingarnir eyddu hlustunarduflinu á staðnum og var síðan haldið að nýju til Reykjavíkur.