Neyðarkall barst frá seglskútu vestur af Garðskaga - aðstæður til björgunar erfiðar

  • GNA2

Föstudagur 9. ágúst 2013

Landhelgisgæslunni barst kl. 23:15 í gærkvöldi neyðarkall frá þýskri seglskútu sem stödd var 17 sjómílur vestur af Garðskaga. Leki hafði komið að skútunni en um borð voru 12 manns, fjórir í áhöfn og átta farþegar. Samstundis var haft samband við skip og báta á svæðinu, þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út sem og björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Togarinn Hrafn Sveinbjarnarson kom fyrstur á vettvang og þyrlan skömmu síðar. Ekki var mögulegt að síga úr þyrlunni vegna hreyfingar á möstrum skútunnar og erfitt var að koma björgunarmönnum um borð vegna veðurs og sjólags.

Rétt eftir klukkan tvö í nótt tókst áhöfn björgunarskipsins Fiskikletts frá Hafnarfirði að koma björgunarmönnum og dælum um borð. Björgunarbáturinn Einar Sigurjónsson flutti fólkið til Sandgerðis þar sem hlúð var að því. Merki frá skútunni hættu að berast kl. 05:03 og er skútan að öllum líkindum sokkin. Mikil mildi þykir að tekist hafi að bjarga öllum sem voru um borð í skútunni en þungur sjór gerði björgunarmönnum erfitt fyrir á vettvangi.