TF-LÍF aðstoðar við óvenjulegt verkefni á Grænlandsjökli
Mánudagur 12. ágúst 2013
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF var nýverið fengin til aðstoðar við óvenjulegt verkefni á Grænlandsjökli. Verkefnið fólst í að aðstoða við björgun bandarískrar sjóflugvélar á vegum Strandgæslunnar af gerðinni Grumman J2F Duck sem týndist þegar hún var við leitar- og björgunarstörf árið 1942. Á síðasta ári tókst að staðsetja flakið u.þ.b. 105 mílur suðaustur af Kulusuk, á 11 metra dýpi í jöklinum. Hafist var handa við að skipuleggja björgun flugvélarinnar og óskuðu fulltrúar bandarísku Strandgæslunnar eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar við að flytja fólk og frakt á staðinn, brást Landhelgisgæslan vel við þeirri beiðni. Leiðangurinn er á vegum stofnunar í Bandaríkjunum sem hefur það hlutverk að finna bandaríska hermenn sem saknað er eftir aðgerðir og endurheimta líkamsleifar þeirra ef mögulegt er.
TF-LÍF kom til Kulusuk að morgni 30. júlí. Þrír voru í áhöfn þyrlunnar flugmennirnir Björn Brekkan og Brynhildur Bjartmarz og Hrannar Sigurðsson, flugvirki. Flak flugvélarinnar hvílir í tvö þúsund feta hæð um 100 mílur suður af Kulusuk sem er um fimmtíu mínútna flug fyrir þyrluna.
Hercules-flugvél bandarísku Strandgæslunnar lendir í Kulusuk
Leiðangursmenn og búnaður komu til Kulusuk með Hercules-flugvél bandarísku Strandgæslunnar gegnum Keflavík. Á flugvellinum í Kulusuk kom í ljós að hópurinn var stærri en talið var og búnaðurinn umfangsmeiri. TF-LÍF þurfti því að fara tvær ferðir á jökulinn en ekki eina eins og fyrirhugað var. Vegna reglna um hvíld þurfti að fara seinni ferðina að morgni miðvikudagsins 31. júlí.
Áhöfn TF-LÍF, flugmennirnir Brynhildur Bjartmarz og Björn Brekkan, Hrannar Sigurðsson, flugvirki með leiðangursstjóra verkefnisins.
Að sögn áhafnarinnar gekk verkefnið vel og voru aðstæður góðar á vettvangi. Björgunarstörf vegna flugvélarinnar munu standa yfir þar til í september og er beðið eftir niðurstöðum þeirra með eftirvæntingu.
Árni Sæberg ljósmyndari fór með TF-LÍF í leiðangurinn og eru myndir hans hér
Sjá frétt Mbl.is um leiðangurinn
Búnaður fluttur úr þyrlunni.
Tjaldbúðir leiðangursmanna á Grænlandsjökli