Tvö þyrluútköll TF-LÍF í dag

Föstudagur 22. ágúst 2013

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF var kölluð út tvisvar sinnum í dag vegna bráðaflutnings. Sóttur var sjómaður sem brenndist um borð í fiskiskipi sem var statt um 40 sml NV af Straumnesi og þegar þyrlan var að lenda með hann við Landspítalann í Fossvogi kl. 16:46 barst annað útkall vegna ferðamanns með brjóstverk sem var staddur á Fimmvörðuhálsi.  Fór þyrlan samstundis á Reykjavíkurflugvöll til eldsneytistöku og var síðan haldið á Fimmvörðuháls. Lent var við skálann kl. 17:58. Sjúklingur var undirbúinn fyrir flutning og hann síðan færður um borð í þyrluna. Farið var í loftið að nýju kl. 18:21 og lent við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 18:53 þar sem sjúkrabíll beið og flutti manninn á sjúkrahús.

Farið var í fyrra útkallið kl. 13:48 eftir að beiðni barst frá fiskibátnum Grundfirðingi. Skipverji fékk yfir sig sjóðandi vatn þegar skipið var staðsett um 40 sjómílur NV af Straumnesi. Eftir samráð við þyrlulækni var ákveðið að sækja manninn. Komið var að skipinu um klukkan þrjú og gekk vel að hífa manninn um borð í þyrluna. Lent var við Landspítalann í Fossvogi kl. 16:46.

Mynd af TF-LIF Árni Sæberg.

Myndina af Grundfirðingi tók áhöfn TF-LÍF þar sem var verið að hífa manninn um borð.