Haldið áfram með sameiginlegt eftirlit Gæslunnar og Fiskistofu

  • Leiftur2

Þriðjudagur 27. ágúst 2013

Í sumar unnu Landhelgisgæslan og Fiskistofa eins og undanfarin ár að sameiginlegu eftirliti með veiðum skipa á Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, Húnaflóa og Skagafirði. Eftirlitið fór fram með harðbotna slöngubátnum Leiftri sem Landhelgisgæslan hefur í prófunum fyrir íslenska skipaframleiðandann Rafnar.

Fyrirkomulag eftirlitsins kom vel út en því var þannig háttað að eftirlitsmenn Fiskistofu fóru um borð í bátana, yfirfóru veiðarfæri, afla, samsetningu hans og afladagbækur en hjá grásleppubátum var einnig kannaður netafjöldi. Landhelgisgæslan kannar lögskráningu og haffærisskírteini bátanna auk þess að hafa umsjón með bátnum Leiftri, leggur til mannskap og búnað vegna hans. Hefur hann reynst sérstaklega vel við eftirlit á grunnslóð.

Smábátum sem stunda veiðar hefur fjölgað mikið með tilkomu strandveiða og talsverð sókn er á grásleppuveiðar. Því vilja eftirlitsaðilar fylgjast með að allt fari eftir settum reglum.

Flestir bátarnir voru með sín mál í lagi en nokkrar athugasemdir voru gerðar vegna afladagbóka.

Myndirnar tók Jón Páll Ásgeirsson, yfirstýrimaður LHG

Við bryggju á Blönduósi