Fjölþjóðlega leitar- og björgunaræfingin SAREX 2013 hófst í dag

Mánudagur 2. september 2013

Fjölþjóðlega leitar- og björgunaræfingin SAREX Greenland Sea 2013 hófst rétt eftir hádegi í dag en æfingin fer fram dagana 2.-6. september, norðaustarlega á Grænlandshafi, milli Daneborg og Meistaravíkur. Æfingin er haldin á grunni samkomulags Norðurskautsríkjanna um öryggi á Norðurslóðum en tilgangur hennar er að þjálfa leitar- og björgunaraðila þjóðanna átta sem liggja að Norðurheimskautinu í að bregðast við áföllum sem verða á afskekktum svæðum Norðurheimskautsins. Í þessu tilfelli viðbrögð þegar skemmtiferðaskip lendir í áföllum á afskekktri austurströnd Grænlands, fjarri öllum björgunareiningum. Þær þjóðir Norður Heimskautsráðsins sem senda búnað og björgunareiningar á svæðið eru auk Íslands: Grænland, Færeyjar, Danmörk, Kanada, Noregur og Bandaríkin


SAREX Greenland Sea 2013 býður upp á fjölbreytta æfingarmöguleika hvað varðar leit, björgun og viðbrögð við mengun bæði á Grænlandi og Íslandi. Tekinn verður upp þráðurinn sem frá var horfið í æfingunni SAREX Greenland Sea 2012 og unnið áfram eftir almannavarnaáætlun svæðisins að leit og björgun, aðstoð og rýmingu skemmtiferðaskips. Auk þess verða þjálfuð viðbrögð við mengunarslysi. (sjá frétt hér af æfingunni 2012 ).


Landhelgisgæslan tekur þátt í æfingunni með ýmsum hætti. Skemmtiferðaskip hættir að senda frá sér staðsetningar innan leitar- og björgunarsvæðis Íslands og hefur björgunarmiðstöðin í Nuuk samband við stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands og óskar eftir aðstoð. Varðskipið Týr er á svæðinu og fer það samstundis til leitar, einnig mun flugvélin TF-SIF taka þátt í leitinni. Björgunaraðilar frá þjóðum Norður Heimskautsráðsins senda búnað og björgunareiningar á svæðið og er Keflavíkurflugvöllur afar mikilvægur m.a.  fyrir móttöku slasaðra, samhæfingu og aðstæður fyrir erlendar flugvélar, áhafnir og fleiri aðila. Starfsfólk Landhelgisgæslunnar og ISAVIA við Keflavíkurflugvöll mun næstu daga sinna ýmsum störfum sem tengjast þessum málaflokki.


Rúmlega 100 fulltrúar Íslands taka með einum eða öðrum hætti þátt í æfingunni en auk Landhelgisgæslunnar koma þátttakendur frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins , lögreglu, Umhverfisstofnun og Landspítalanum. Einnig hafa innanríkisráðuneytið og utanríkisráðuneytið komið að skipulagsferlinu.

Myndirnar voru teknar sl. ár,  í æfingunni SAREX Greenland 2012 Gassi ljósmyndari og danski flotinn.

Fleiri myndir frá æfingunni 2012 eru hér