Lætur af störfum eftir rúm 40 ár hjá Gæslunni

Föstudagur 6. september 2013

Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar lætur af störfum í dag eftir rúmlega 40 ára farsælt starf hjá Landhelgisgæslunni. Hjalti hefur sinnt ýmsum störfum innan Landhelgisgæslunnar á glæstum ferli.  Hjalti starfaði fyrst sem loftskeytamaður á varðskipum, í loftförum, á verkstæði og stjórnstöð auk þess að vera kafari í nokkur ár, aðallega á varðskipunum.  Eftir að sólarhringsvaktir voru teknar upp í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á Seljaveginum í ársbyrjun 1987, og stjórnstöðin fékk jafnframt stöðu sem alþjóðleg sjóbjörgunarstjórnstöð fyrir íslenska leitar- og björgunarsvæðið starfaði Hjalti áfram þar ásamt öðrum loftskeytamönnum LHG og tók þátt í uppbyggingu og skipulagi hennar.  Hjalti var skipaður aðalvarðstjóri í stjórnstöðinni 1993.

Eftir að Landhelgisgæslan tók við verkefnum vaktstöðvar siglinga árið 2005 voru verkefni vaktstöðvarinnar samhæfð öðrum verkefnum stjórnstöðvarinnar og varð Hjalti jafnframt aðalvarðstjóri hennar.  Þessum störfum hefur Hjalti sinnt af einstakri trúmennsku, dugnaði og elju og gætt hagsmuna Landhelgisgæslunnar sem og allra er þjónustu hennar njóta í hvívetna. 

Hjalti segir starf sitt alla tíð hafa verið einstaklega fjölbreytt og spennandi. Vinnuaðstæður, tækni og umhverfi hefur óneitanlega breyst mikið frá tímum sérhæfðri vinnu loftskeytamanna, m.a. með morse viðskiptum á varðskipunum yfir í nútímafjarskiptatækni sem flestum er aðgengileg í dag.

Alltaf hefur verið mikið um að vera, spennandi verkefni og tækifæri til að kynnast óteljandi hliðum mannlífsins. Hjalti segir þorskastríðin standa að vissu leyti upp úr við þessi tímamót auk samstarfs við alla fjóra forstjóra LHG á tímabilinu en ekki síst frábært samstarf við fjölda núverandi og fyrrverandi gæslumanna. Hann rifjaði upp að við lok síðustu tveggja þorskastríðanna var Landhelgisgæslan um 200 manna starfslið, sjö varðskip í rekstri, tvær flugvélar auk þyrla.

Hjalti var síðasti loftskeytamaðurinn í fastri áhöfn varðskipa, en hann fór í land af varðskipinu Ægi rétt fyrir jól 1986 og fór eins og áður sagði til starfa í stjórnstöðinni sem þá var staðsett á Seljavegi 32 í Reykjavík.

Nú gefst Hjalta rýmri tími til að sinna fjölskyldu, golfiðkun, ferðalögum og ýmsu öðru sem hefur setið á hakanum, vegna vinnunnar. Landhelgisgæslan þakkar Hjalta fyrir frábært samstarf og gangi honum sem allra best á öðrum vettvangi.

Myndirnar tók Jón Páll Ásgeirsson.


Fjölmenni var í kveðjuhófinu. Ásgrímur L. Ásgrímsson,
framkvæmdastjóri aðgerðasviðs þakkar frábæra samvinnu


Hjalti og Björgólfur Ingason, samstarfsmaður til margra ára í stjórnstöðinni

Mynd af Hjalta um borð í v/s Óðni er úr myndasafni Valdimars Jónssonar, loftskeytamanns.