Afskipti höfð af olíuskipi á rangri siglingaleið

Miðvikudagur 18. september 2013

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði kl. 04:45 afskipti af erlendu 29.694 tonna olíuskipi sem var á siglingu fyrir innan aðskildar siglingaleiðir á SA- leið. Þar sem skipum af þessari stærð sem flytja hættulegan farm er ekki heimilt að sigla þessa leið hafði varðstjóri samband við skipið til að spyrjast fyrir um ferðir þess. Stýrimaður var inntur eftir því hvort hann hefði kynnt sér reglur sem eru í gildi um  aðskildar siglingleiðir fyrir Reykjanes og hvort ekki væru gild sjókort um borð. Vakthafandi stýrimaður skipsins sagðist vera með gild rafræn kort en þar væru ekki upplýsingar um aðskildar siglingaleiðir. Tók hann vel í ábendingar Landhelgisgæslunnar og beygði strax inn á rétta siglingaleið en þetta var hans fyrsta sigling til Íslands. 

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar þurfa reglulega að aðstoða skip við siglingar um hafsvæðið og leiðbeina skipstjórnarmönnum. Bæði hafa veður mikil áhrif á siglingar en einnig kemur fyrir að stjórnendur skipa kynna sér ekki nægjanlega reglur um aðskildar siglingaleiðir. Því er afar mikilvægt að geta fylgst með þeim í fjareftirlitskerfum.

Sjá reglugerð