TF-SIF afkastamikil í leit, björgun og eftirliti Frontex

  • LHG_Frontex_SamvinnaAegirSif

Fimmtudagur 25. september 2013

Sif, flugvél Landhelgisgæslunnar og varðskipið Týr sinntu í sumar eins og undanfarin ár verkefnum við gæslu- og eftirlit fyrir Landamæraeftirlitsstofnun Evrópusambandsins, Frontex. Sif kom aftur til landsins í byrjun september en þá hafði hún verið við eftirlitið frá miðjum júní en Týr var við eftirlit í um fimm vikur og kom aftur til landsins í byrjun ágúst.

Á tímabilinu var flugvélin staðsett á þremur stöðum, Sikiley, Brindisi, Corfu,  og vaktaði þrjú svæði Miðjarðarhafsins. Samtals komu upp 16 atvik þar sem kalla þurfti til aðstoðar varðskip eða strandgæslubáta á svæðinu. Samtals var 875 manns bjargað á tímabilinu. Einnig komu upp þrjú atvik þar sem flugvélin greindi báta sem voru í flutningum á fíkniefnum til Evrópu. Þegar löggæsluaðilar þjóðanna fóru til nánara eftirlits fundust samtals 2,3 tonn af fíkniefnum um borð. Samtals fundust 1.1 tonn af fíkniefnum í einum bát sem var á leið frá Albaníu til Ítalíu. Sjá umfjöllun ítalska fjölmiðilsins Lecce Prima.

Flugvélin hentar afar vel fyrir þessi verkefni enda safnar eftirlitsbúnaður hennar margvíslegum upplýsingum á skömmum tíma.  Mikil ánægja hefur verið með störf starfsmanna Landhelgisgæslunnar en fimm manna áhöfn fylgir flugvélinni auk flugvirkja og starfsmanns í stjórnstöð Frontex. Upplýsingar frá flugvélinni eru sendar til stjórnstöðvanna og allar ákvarðanir varðandi eftirlitið eru teknar í samráði við þær.

Mynd af flugvél og varðskipi LHG er tekin af Guðmundi St. Valdimarssyni.

Hér eru myndir út eftirlitsbúnaði TF-SIF