TF-LÍF fór í sjúkraflug á Vestfirði

Vegna óhagstæðra veðuraðstæðna var ekki mögulegt fyrir sjúkraflugvél að lenda

Föstudagur 11. október 2013

Vegna óhagstæðra veðuraðstæðna var í gærkvöldi óskað eftir að TF-LÍF þyrla Landhelgisgæslunnar myndi taka að sér aðkallandi sjúkraflug á Patreksfjörð þar sem ekki var hægt fyrir sjúkraflugvél að lenda vegna hvassviðris og lélegs skyggnis.

Áhöfn TF-LÍF og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar unnu að málinu í góðu samstarfi við lögreglu og sjúkraflutninga á svæðinu.  Þegar komið var á staðinn var útséð með að þyrlan myndi ekki lenda á Patreksfirði og var haldið til eldsneytistöku á Rifi meðan lögregla fann heppilegan lendingarstað. Lent var við bæinn Breiðlæk á Barðaströnd þar sem sjúklingur var fluttur úr sjúkrabifreið um borð í þyrluna. Lenti þyrlan í Reykjavík rétt fyrir klukkan þrjú í nótt.

Mynd af TF-LÍF Árni Sæberg.