Varðskipið Þór kominn með Fernanda til hafnar

Föstudagur 1. nóvember 2013

Varðskipið Þór kom með flutningaskipið Fernanda til Hafnarfjarðar um klukkan níu í morgun. Landhelgisgæslan, lögregla og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vinna saman að aðgerðum í Hafnarfjarðarhöfn. Varðskipið sprautar á skipið utanvert en fjölmennt lið slökkviliðs vinnur að slökkvistörfum frá landi en milli þrjátíu og fjörutíu manns taka þátt í slökkvistarfinu.

Eldur kom upp í skipinu á miðvikudag og var ellefu manna áhöfn þess bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar og var flutt til Reykjavíkur. Áhöfnin slapp heil á húfi. Varðskipsmenn og slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins fóru um borð í Fernanda í gær til að tryggja aðstæður skipið var tekið í tog og dregið til Hafnarfjarðar.