Þór gengur vel að draga flutningaskipið Fernanda

Föstudagur 1. nóvember 2013 kl. 17:00

Varðskipið Þór er nú með flutningaskipið Fernanda í togi og gengur dráttur skipsins vel. Siglt er á u.þ.b. sex mílna hraða en eins og komið hefur fram er markmiðið að komast á svæði þar sem vindátt er hagstæð miðað við hugsanlegt rek á skipinu. Einnig er horft til þess að lágmarka áhættu á að skipið sökkvi með hliðsjón af umhverfisvá en fyrst og síðast að tryggja öryggi allra þeirra aðila sem koma að aðgerðinni. 

Meðan aðstæður leyfa mun varðskipið Þór draga Fernanda á svæði eins fjarri hrygningarsvæðum og veiðislóðum og kostur er.  Ef svo færi að skipið sökkvi miðast aðgerðir við að sem minnstar líkur verði á því að olía berist á strönd með tilliti til hafstrauma.  Náið er fylgst með framvindu mála í samstarfi við viðbragðsaðila, Hafrannsóknarstofnun, Umhverfisstofnunar og Samgöngustofu.