Nú er nýlokið samráðsfundi vegna Fernanda

Nú er nýlokið samráðsfundi þeirra aðila sem hafa komið að mati og ákvörðunum varðandi framvindu mála vegna eldsvoðans um borð í flutningaskipinu Fernanda en þeir eru fulltrúar Landhelgisgæslunnar, Umhverfisstofnunar, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Hafrannsóknarstofnunar, Samgöngustofu, hafnaryfirvalda Faxaflóahafna og Hafnarfjarðarhafnar, lögreglu, eigenda skipsins og tryggingafélags.   

Farið var yfir aðstæður eins og þær eru núna en áhöfn varðskipsins Þórs og slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins telja að eldur sé slokknaður um borð í skipinu.  Í ljósi versnandi veðurs á staðnum og slæmrar veðurspár var tekin ákvörðun um að draga skipið í var, þar sem unnt verður að fara um borð í það og kanna til hlítar ástand þess en slíkt er ekki unnt að framkvæma þar sem skipið er nú staðsett. Í framhaldi af því verður svo tekin ákvörðun um hvert verði farið með skipið til að dæla úr því olíu og væntanlega niðurrifs.