Eldur kom upp í íslensku flutningaskipi

Mánudagur 11. nóvember 2013 kl. 06:55

Landhelgisgæslunni barst í nótt tilkynning frá flutningaskipinu Goðafossi um að eldur hefði komið upp í skorsteinshúsi skipsins og var unnið var að slökkvistörfum um borð. Skipið var staðsett um 70 sjómílur V – af Færeyjum á leið til Íslands. Þrettán manns eru í áhöfn skipsins auk þriggja farþega. Skipið óskaði eftir aðstoð klukkan 05:00 og kallaði Landhelgisgæslan þá samstundis út þyrlur Landhelgisgæslunnar, flugvél og varðskip. Báðar þyrlurnar og flugvél Landhelgisgæslunnar fóru í loftið skömmu síðar. Varðskipið Þór er að leggja af stað áleiðis á vettvang.

Flutningaskipið Arnarfell er staðsett austur af Goðafossi og verður á staðnum um kl. 08:45. Slæmt veður er á svæðinu.

Um klukkan sex barst tilkynning frá skipinu um að þeir telja sig hafa náð tökum á eldinum og er unnið að kælingu. Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar hefur engan sakað um borð í Goðafoss. 

kl. 07:10

Allar einingar Landhelgisgæslunnar hafa nú verið virkjaðar auk Samhæfingarstöðvar í Skógarhlíð en skipið er staðsett í íslenskri björgunarlögsögu og hefur Landhelgisgæslan verið í sambandi við björgunarmiðstöðina í Færeyjum vegna málsins og eru þeir reiðubúnir að veita alla þá aðstoð sem þeir geta við björgunaraðgerðir. Björgunarmiðstöð í N - Bretlandi hefur einnig boðið fram aðstoð sína.

Skipið er á leið til landsins frá Evrópu og hafði viðkomu í Færeyjum en fóru þaðan kl. 09:00 í gærmorgun. Skipið er hlaðið hefðbundnum farmi.

Myndin sýnir þyrlur Landhelgisgæslunnar þar sem þær eru í viðbragðsstöðu á Hornafirði.