Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Sunnudagur 17. nóvember 2013

Landhelgisgæslan tók í morgun þátt í athöfn sem fór fram við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í tilefni af alþjóðlegum minningardegi, þar sem minnst er þeirra sem látist hafa í umferðinni.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra var viðstödd athöfnina ásamt fulltrúum viðbragðsaðila. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar og þyrluáhöfn voru viðstaddir auk hjúkrunarfólks, lækna, lögreglu, slökkviliðs, sjúkraflutningamanna, rannsóknarnefndar samgönguslysa og fleiri hlutaðeigandi ásamt aðstandendum og gestum.

Hanna Birna Kristjánsdóttir flutti þessum starfsstéttum þakkir fyrir það mikilvæga og óeigingjarna starf sem þær sinna. Er þetta þriðja árið í röð sem minningardagur sem þessi er haldinn formlega hér á landi en frá árinu 1993 hafa Sameinuðu þjóðirnar tileinkað þriðja sunnudag nóvembermánaðar þessu málefni.

Landsmenn eru hvattir til að nota daginn til að leiða hugann að minningu þeirra sem hafa látist í umferðinni og jafnframt íhuga þá ábyrgð sem hver og einn ber sem þátttakandi í umferðinni.


Mynd frá minningarathöfninni í morgun.
Ljósmyndari Árni Sæberg.


Ljósmyndari Einar Magnús Magnússon.


Ljósmyndari Einar Magnús Magnússon.


Ljósmyndari Einar Magnús Magnússon.