Þyrlur LHG kallaðar út fjórum sinnum síðastliðinn sólarhring

  • GNA1_haust2012

Sunnudagur 12. janúar 2014

Miklar annir hafa verið hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sem hefur sinnt fjórum útköllum síðastliðinn sólahring. Fjórir slasaðir voru í gærkvöldi fluttir með þyrlu frá Skógum en fólkið slasaðist í umferðarslysi sem varð á brúnni yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Lögregla og sjúkrabifreiðar voru komnar á staðinn en þyrlan sem var við hefðbundið eftirlit á svæðinu bauðst til að flytja fólkið til Reykjavíkur og var það þegið.

Í morgun kl. 06:29 var svo óskað eftir þyrlu til að sækja tvo sjúklinga til Patreksfjarðar en vegna veðurs var ekki mögulegt fyrir sjúkraflugvél að lenda á flugvellinum. Lent var við Borgarspítalann um klukkan 10:00. Klukkustund síðar var óskað eftir þyrlu til að sækja veikan mann um borð í togara um 60 sjómílur SV af Reykjanesi. Sigmaður seig niður í togarann og var maðurinn undirbúinn fyrir flutning á börum sem voru svo hífðar um borð í þyrluna.  Erfiðar aðstæður voru hjá togaranum vegna hvassviðris og ölduhæðar. Lenti TF-GNA við Borgarspítalann um kl. 14:00.

Skömmu eftir hádegi barst fjórða útkallið og var áhöfn TF-LIF kölluð út vegna alvarlegs bílslyss sem varð í Borgarfirði. Nauðsynlegt var að kalla út frívakt að hluta til vegna þess sem á undan var gengið! Einnig fór bráðatæknir frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins með þyrlunni í útkallið. Þyrlan lenti rétt fyrir klukkan tvö við Borgarspítalann í Fossvogi.