Umfangsmikil leit stendur yfir á Faxaflóa

Sunnudagur 2. febrúar 2014

Landhelgisgæslunni barst um kl. 15:00 aðstoðarbeiðni frá bát sem leki hafði komið að á Faxaflóa og voru skipverjar komnir í björgunargalla. Ekki náðist staðsetning bátsins eða aðrar upplýsingar og hefur ekki náðst samband við bátinn.

Samstundis voru þyrlur Landhelgisgæslunnar kallaðar út auk kafara, björgunarskipa og báta Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Einnig voru finnskar þyrlur sem eru á landinu vegna æfingarinnar Iceland Air Meet 2014 fengnar til að taka þátt í leitinni á Faxaflóa.

Samhæfingarstöð hefur verið virkjuð vegna leitarinnar.

Ekki er vitað um hvaða bát er að ræða og ekki vantar bát í sjálfvirka tilkynningaskyldu báta og skipa. Leitarsvæðið er mjög umfangsmikið og engar upplýsingar til um hugsanlega staðsetningu.