Leit á Faxaflóa hefur ekki borið árangur

  • _MG_0566

Mánudagur 3. febrúar 2014

Víðtæk leit sem staðið hefur yfir frá því í gær á Faxaflóa hefur ekki borið árangur. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug í dag um svæðið og var ekkert sem vakti athygli sem gat hugsanlega tengst neyðarkallinu. Leit var frestað í um kl. 22:00 í gærkvöldi en lþá höfðu um 200 manns verið við leit á sjó og landi í sjö klukkustundir.

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar heyrðu kl. 14:54 aðstoðarbeiðni á rás 16 sem er neyðar og uppkallsrás skipa og báta. „Okkur vantar aðstoð – við erum úti við Faxaflóa – Yfir - Báturinn er farinn að leka mikið og við erum að fara í flotgallana“. Skilaboðin voru 20 sekúndur að lengd og ítrekaðar tilraunir varðstjóra Landhelgisgæslunnar við að ná sambandi við bátinn að nýju báru ekki árangur.

Samstundis var hafin víðtæk leit en skilaboðin heyrðust einnig í harðbotna björgunarbát Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Akranesi. Samstundis voru þyrlur Landhelgisgæslunnar kallaðar út auk kafara og björgunarskipa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Finnskar björgunarþyrlur sem taka þátt í æfingunni Iceland Air Meet 2014 voru einnig við leit og Samhæfingarstöð almannavarna var virkjuð. Allt að tvö hundruð manns tóku þátt.

Reiknað var út leitarsvæði miðað við senda á Bláfjöllum og Fróðárheiði. Var með þeim hætti hægt að minnka leitarsvæðið sem náði allt frá Malarrifi að Garðskaga. Landhelgisgæslan og Slysavarnarfélagið Landsbjörg leituðu ítarlega á austanverðum Faxaflóa meðan finnskar björgunarþyrlur leituðu á norðan og vestanverðum Faxaflóa en einnig var Björg, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Rifi þar við leit. Í kvöld voru gerðar fjarskiptaprófanir milli báta til að finna ytri mörk leitarsvæðisins og hefur það svæði þegar verið leitað vel úr lofti, á sjó og frá landi.  

Engin tilkynning hefur borist frá sjálfvirku tilkynningaskyldunni eða neyðarsendum og ekki hafa sést neyðarblys á lofti. Ekki hefur verið samband vegna báta sem er saknað.