112 dagurinn haldinn 11. febrúar

Mánudagur 10. febrúar 2014

112-dagurinn er haldinn um allt land á morgun, þriðjudaginn 11. febrúar. Hann er einnig haldinn víða um Evrópu en 112 er samræmt neyðarnúmer í Evrópu. Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið og þá margvíslegu aðstoð sem almenningur hefur aðgang að í gegnum það. Að þessu sinni er áhersla lögð á að auka öryggi í ferðum fólks að vetrarlagi, hvort sem er á vegum eða utan alfaraleiða. Vegagerðin grípur um þessar mundir til víðtækra ráðstafana til að stemma stigu við að fólk leggi í tvísýn ferðalög þrátt fyrir ófærð og ítrekaðar viðvaranir. Sett verða upp lokunarhlið við fjölda leiða á þjóðvegi 1 og víðar. Aðgerðir Vegagerðarinnar verða kynntar sérstaklega á 112-daginn.

Við sérstaka dagskrá í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð 11. febrúar kl. 16 verða veitt verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2013 og neyðarverði ársins verður veitt viðurkenning. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flytur ávarp við athöfnina.

112-dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu. Þau eru: 112, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslan, Landspítalinn, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjórinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðin og samstarfsaðilar um allt land.