Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar kallaðir út eftir sprengjuhótun í flugvél

Miðvikudagur 12. febrúar 2014

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar luku um klukkan 16:00 í dag sprengjuleit í flugvél WOW air sem lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan rúmlega tvö í dag. Engin merki um sprengju fundust í vélinni.

Hótun um að sprengja væri í vélinni barst þegar vélin var um það bil hálfnuð á leið sinni frá London.Neyðaráætlun vegna flugverndar var virkjuð, bæði á Suðurnesjum og í Samhæfingarstöð í Skógarhlíð og var mikill viðbúnaður á Keflavíkurflugvelli þegar vélin lenti klukkan 14:14. Um borð voru 143 farþegar og sjö í áhöfn.