Norrænir utanríkis- og varnarmálaráðherrar heimsóttu IAM 2014

Miðvikudagur 12. febrúar 2014

Utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar Norðurlandanna heimsóttu í morgun þjálfunarverkefnið Iceland Air Meet 2014 (IAM 2014)” sem fer fram á Keflavíkurflugvelli. Er þetta í fyrsta sinn sem sænskar og finnskar flugsveitir taka þátt í þjálfun hér á landi en þátttakendur koma einnig frá aðildarríkjum NATO þ.e. Íslandi, Noregi, Hollandi og Bandaríkjunum.

Þjálfunarverkefnið er mikilvægt skref í að efla samstarf þjóðanna og var á fundi ráðherranna, sem fór fram að lokinni heimsóknni,  m.a. rætt um friðsamlega samvinnu á norðurslóðum og mörg tækifæri Norðurlandanna í til að þróa, viðhalda og nýta viðbragðsgetu sína með enn skilvirkari hætti. Þáttur í því er sameiginleg þjálfun eins og nú er gert með samnorrænu æfingunni Iceland Air Meet. Voru ráðherrarnir voru sammála um að á grundvelli reynslunnar nú verði metið hvort æfingin Iceland Air Meet verði haldin með reglulegum hætti.

Er þetta í fyrsta skipti sem Iceland Air Meet er haldið en Landhelgisgæslan fer með daglega framkvæmd varnartengdra verkefna hér á landi auk þess að bera ábyrgð á gistiríkjastuðningi við þjóðirnar sem koma hingað til lands til æfinga og þjálfunar.