Fjölmenn kynning loftrýmisgæslu og samnorræna verkefnisins Iceland Air Meet 2014

Þriðjudagur 18. febrúar 2014

Hátt í eitt hundrað innlendir jafnt sem erlendir gestir fengu í dag kynningu á annars vegar loftrýmisgæslu NATO og hins vegar samnorræna þjálfunarverkefninu Iceland Air Meet 2014 sem staðið hefur yfir öryggissvæðinu við Keflavíkurflugvöll frá 3. febrúar síðastliðnum. Í ávarpi sínu ræddi Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar um þróun mála á norðurslóðum og mikilvægi þess að starfa náið með Norðurlandaþjóðunum á vettvangi öryggis- og varnarmála. Landhelgisgæslan hefur á síðastliðnum árum starfað með þjóðunum með ýmsum hætti við leit og björgun, sameiginlega þjálfun, miðlun upplýsinga og tækjabúnað auk þess að vinna sameiginlega að öryggismálum á alþjóðlegum vettvangi.

Stjórnendur verkefnisins, Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri lofthelgis- og öryggismálasviðs Landhelgisgæslunnar og fulltrúi Íslands stjórnarteymi Iceland Air Meet 2014, Lt. Gen, Morten Haga Lunde, yfirmaður sameiginlegrar herstjórnarmiðstöðvar Norska hersins í Bodo, Noregi, Norwegian Joint Headquarters og Col. Geir Wiik, stjórnandi Iceland Air Meet 2014 voru sammála um að mjög vel hafi tekist til og öllum markmiðum Iceland Air Meet hafi verið náð. Þau voru m.a. að þróa samstarf Nordic Defence Cooperation (NORDEFCO) og Atlantshafsbandalagsins og flytja umfangsmikinn liðsafla, tæki og búnaði fjarri heimahögum. Norðmenn, Svíar og Finnar hafa langa reynslu af sameiginlegri þjálfun innan NORDEFCO og er sífellt leitast til við að auka gæði þjálfunarinnar og eru kröfur teygðar til hins ýtrasta.  Hér á landi náðu allar fjóra þjóðirnar að nota saman hátæknibúnað til að skiptast á gögnum milli stjórnstöðvar í Keflavík og flugvéla.  

Finnar og Svíar fluttu búnað sinn landleiðina til Bodo í Noregi þar sem hann var fluttur um borð í flutningaskip sem sigldi til Helguvíkur. Fékk skipið mjög slæmt veður á leið til landsins en búnaðurinn, m.a. NH-90 björgunarþyrlur Finna, komu í góðu ásigkomulagi á áfangastað. Þyrlurnar voru afar mikilvægur hluti af verkefninu og var önnur þeirra ávallt í viðbragðsstöðu meðan þoturnar voru við þjálfun. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar í stjórnstöðinni í Keflavík (CRC) störfuðu við hlið fulltrúa Norðurlandaþjóðanna og voru í nánu samstarfi við ISAVIA samanber samstarfssamninga aðila á milli.  Einnig komu aðrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar, utanríkisráðuneytisins, ISAVIA, tollgæslunnar, lögreglunnar á Suðurnesjum og fjöldi verktaka að verkefninu með ýmsum hætti.

Náið samstarf innlendra jafnt sem erlendra aðila er nauðsynlegt við framkvæmd svo umfangsmikils verkefnis og var samróma álit allra að vel hafi tekist til og eru miklar vonir bundnar við að slík samnorræn þjálfun verði að reglulegum viðburði héðan í frá. Þjálfunarverkefninu Iceland Air Meet 2014 lýkur á föstudag og hefjast samdægurs flutningar á búnaði og liðsafla
þjóðanna frá landinu.


Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar ræddi m.a. um mikilvægi náins samstarfs Norðurlandaþjóðanna.


Haakon Bruun-Hanssen, aðmíráll, yfirmaður varnarmála í Noregi, Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri lofthelgis- og öryggismálasviðs Landhelgisgæslunnar, Sverker Göranson, hershöfðingi, yfirmaður varnarmála í Svíþjóð.


Jón B. Guðnason, Major General Josef Blotz, framkvæmdastjóri hjá höfuðstöðvum NATO ásamt
Col. Geir Wiik, stjórnanda Iceland Air Meet 2014.


NH-90 björgunarþyrla Finna var til sýnis


Grippen þotur Svía keyra út á flugbraut.


Þórður Ingvi Guðmundsson, varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins,
Jón B. Guðnason ásamt Arnóri Sigurjónssyni, hermálafulltrúi í Fastanefnd Íslands hjá NATO.


Col. Geir Wiik, stjórnandi Iceland Air Meet 2014 kynnir helstu niðurstöður þjálfunarverkefnisins.


Sverker Göranson, hershöfðingi, yfirmaður varnarmála í Svíþjóð afhenti Jóni B. Guðnasyni skjöld og þakkaði Landhelgisgæslunni gott samstarf.


Þotur og ýmiss búnaður var til sýnis fyrir gestina.