TF-SIF tók þátt í björgunaraðgerð á Miðjarðarhafi

Mánudagur 3. mars 2014

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF kom nýverið að björgunaraðgerð 93 sjómílur suður af eyjunni Lampedusa á Miðjarðarhafi þar sem um 98 flóttamönnum var bjargað um borð í skip ítölsku strandgæslunnar. Um borð voru um 89 fullorðnir og 9 börn. TF-SIF hefur frá byrjun febrúar verið við landamæraeftirlit á Miðjarðarhafi fyrir Frontex Evrópusambandsins en Ísland er aðili að samstarfinu í gegnum Schengen.

Flugvélin hentar afar vel fyrir þessi verkefni enda safnar eftirlitsbúnaður hennar margvíslegum upplýsingum á skömmum tíma.  Mikil ánægja hefur verið með störf starfsmanna Landhelgisgæslunnar en fimm manna áhöfn fylgir flugvélinni auk flugvirkja og starfsmanns í stjórnstöð Frontex. Upplýsingar frá flugvélinni eru sendar til stjórnstöðvanna og allar ákvarðanir varðandi eftirlitið eru teknar í samráði við þær.

Megintilgangur með eftirliti Frontex er landamæragæsla en óhjákvæmilega þróast verkefnin oft á tíðum yfir í að verða björgunaraðgerðir. Stafar það m.a. af því að fólkið er á illa útbúnum fleytum sem ekki eru ætlaðar til lengri siglinga. Skipuleggendum smyglsins stendur á sama um örlög flóttafólksins eftir að hafa fengið greiðslu fyrir fargjaldið.

Mynd af TF-SIF - Árni Sæberg

Mynd af bátnum tekin úr eftirlitsbúnaði TF-SIF.