Samherji afhenti hjartastuðtæki fyrir þyrlur LHG

Fimmtudagur 13. mars 2014

Útgerðarfyrirtækið Samherji á Akureyri afhenti í gær Landhelgisgæslunni að gjöf tvö hágæða hjartastuðtæki í tilefni af því að þann 9. mars voru tíu ár liðin frá því að þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF bjargaði sextán manna áhöfn fjölveiðiskipsins Baldvins Þorsteinssonar EA-10, sem strandaði í Skarðsfjöru á Suðurlandi, um þrjár sjómílur austur af Skarðsfjöruvita. Sjá frétt á heimasíðu LHG. Georg Kristinn Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, Benóný Ásgrímsson og áhöfn TF-LIF þyrlu Landhelgisgæslunnar veittu þessari rausnarlegu gjöf viðtöku.

Í ávarpi sínu Georg þakkaði innilega fyrir gjöfina en þessi tæki eru bylting við umönnun sjúklinga um borð í þyrlunum. Frá þeim er hægt að senda hjartarit beint á sjúkrahús sem hefur mikla þýðingu fyrir áframhald umönnunar. Tækið veitir mikilvægar upplýsingar um ástand sjúklings sem eldri tæki buðu ekki upp á. Hann sagði ennfremur að með gjöfinni sýni Samherji að fyrirtækið tekur ábyrgð, ekki einungis á rekstri sínum og fólki, heldur tekur fyrirtækið einnig samfélagslega ábyrgð sem Landhelgisgæslan og þjóðin öll nýtur góðs af. Búnaður þessi mun örugglega bjarga einhverjum  hvort sem það verður sjómaður, erlendur ferðamaður eða einhver samborgari okkar í bráðri lífshættu.

Þorsteinn Baldvinsson, forstjóri Samherja og Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðasviðs rifjuðu upp atburðinn þegar skipið fékk nótina í skrúfuna um klukkan 3 að nóttu, þar sem það var við loðnuveiðar skammt undan landi. Um klukkustund síðar var skipið strandað í fjörunni. Áhöfn þyrlunnar og björgunarsveitir voru kallaðar út en í millitíðinni var reynt, án árangurs, að koma traustri línu á milli skipsins og loðnuskipsins Bjarna Ólafssonar AK-70 sem fyrst kom á vettvang til björgunar. Þyrlan kom á strandstað kl. 6.10 og var búið var að bjarga öllum skipverjum frá borði fjörutíu mínútum síðar. Níu dögum síðar náðist skipið af strandstað.


Mynd sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður LHG tók 13. mars 2004, þegar unnið var að björgun Baldvins Þorsteinssonar EA. TF-SIF yfir norska dráttarskipinu Norman Mariner sem dró skipið á flot. Á myndinni er TF-SIF að ferja dráttartóg milli skipana. Sif fór svo með tengilínu frá Baldvin út í Norman Mariner. Þurfti að fara afturábak alla leiðina.

Þorsteinn Már Baldvinsson, sagði forráðamenn fyrirtækisins fyrst og fremst vilja sýna Landhelgisgæslunni og Landspítalanum þakklætisvott fyrir frábæra þjónustu. Mikilvægt sé að hlúa að þessari starfsemi. Þeir minntust samhugarins sem þeir fundu fyrir meðan björgunaraðgerðir stóðu yfir. Björgunarsveitarfólk og starfsmenn Landhelgisgæslunnar viku ekki af vettvangi. Þyrla varnarliðsins kom til aðstoðar, dráttarskip sigldi frá Noregi til Íslands og var dráttarvír sendur með flugi frá Noregi. Allsstaðar fundu þeir fyrir hjálpsemi, greiðvikni og jákvæðni -  allir unnu sem einn að bestri niðurstöðu. Slíkt hefur ómetanlega þýðingu.



Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri ávarpar viðstadda


Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar


Georg Lárusson forstjóri LHG, Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja og Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs


Bergur Stefánsson, einn af þyrlulæknum Landhelgisgæslunnar, Benóný Ásgrímsson, flugstjóri, Grétar Einarsson, björgunarsveitarmaður í Vík sem kom að björguninni fyrir 10 árum, og Hákon Þröstur Guðmundsson, annar skipstjóra á Baldvini á sínum tíma.


Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs


Fulltrúar Landhelgisgæslunnar og Samherja, þ.a.m. þeir sem voru í áhöfn
Baldvins Þorsteinssonar fyrir tíu árum síðan.


Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja. Georg Lárusson forstjóri LHG, áhöfn TF-LÍF, Grétar Einarsson, björgunarsveitarmaður í Vík sem kom að björguninni fyrir 10 árum, Hákon Þröstur Guðmundsson,  annar skipstjóra á Baldvini á sínum tíma og Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja.