Bilun kom upp í ferjuflugvél - TF-GNA fylgdi vélinni inn til lendingar
Fimmtudagur 20. mars 2014
Varðskip og þyrla Landhelgisgæslunnar voru kl. 11:30 í gær sett í viðbragðsstöðu vegna lítillar flugvélar, með þrjá farþega um borð, sem var á leið frá Íslandi til Grænlands. Vélinni hafði verið snúið við til Reykjavíkur vegna tæknilegra vandamála. Þyrlan TF-GNÁ var í æfingaflugi þegar aðstoðarbeiðnin barst og flaug tafarlaust til móts við flugvélina. Kom þyrlan að flugvélinni kl. 11:52 og fylgdi henni inn til Reykjavíkur. Varðskipið Ægir sigldi til móts við staðsetningu flugvélarinnar og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði nokkrum sinnum út staðsetningu vélarinnar til skipa á svæðinu. Vélin lenti heilu og höldnu í Reykjavík kl 12:03.
Landhelgisgæslan fer með yfirstjórn og ber ábyrgð á leitar- og björgunarþjónustu á íslenska leitar- og björgunarsvæðinu vegna sjófarenda og stjórnar auk þess leit og björgun vegna loftfara sem óttast er um, lenda í flugslysum eða er saknað. Landhelgisgæslan sér um að samhæfa leitar- og björgunarstörf allra tiltækra björgunaraðila á og yfir hafinu og sér auk þess um vettvangsstjórn ef slysstaður er á hafinu. ISAVIA annast viðbúnaðarþjónustu vegna loftfara og gerir Landhelgisgæslunni viðvart ef þörf er á viðbragði leitar- og björgunaraðila.