Ískort afhenti flugdeild LHG nýjan kortagrunn sem eykur öryggi á flugi

Þriðjudagur 1. apríl 2014

Ískort afhenti í gær flugdeild Landhelgisgæslunnar nýjan kortagrunn sem er sérstaklega útbúinn með þarfir þyrlusveitarinnar í huga. Marteinn S. Sigurðsson framkvæmdastjóri Ískorta afhenti Auðunni F. Kristinssyni, verkefnisstjóra aðgerðasviðs, Henning Þ. Aðalmundssyni, stýrimanni/sigmanni og Sigurði Heiðari Wiium, yfirflugstjóra, formlega kortagrunninn sem Landhelgisgæslan í samstarfi við Ískort hafa verið að vinna að. Hefur hann gríðarlega mikla þýðingu fyrir þyrludeildina og mun þetta auka öryggi í flugi til muna. Eru þar með sjónarmið flugöryggis, leitar á landi og á sjó sameinuð í eitt kortasafn en hingað til hafa leiðsögukort um borð í loftförum Landhelgisgæslunnar ekki falið í sér svo margvíslegar upplýsingar. Þyrlusveitin hefur verið með kortagrunninn í prófunum í nokkurn tíma og hefur hann reynst afar vel og skilað því að grunnurinn er sniðinn að þörfum flugdeildarinnar.

Í kortagrunninum eru dregnir fram þeir þættir sem auka öryggi á flugi og samanstendur hann af gögnum og upplýsingum varðandi u.þ.b. 600 staðsetningar á landinu. Þar má helst nefna staðsetningu fjarskiptamastra og raflína, gögn frá Sjómælingasviði Landhelgisgæslunnar/Sjómælinga Íslands þar sem vitar, baujur, dýptarlínurlínur og annað í sjó er gert sýnilegt en slíkar upplýsingar nýtast þyrlusveitinni við leit á sjó.  Einnig eru stefnuvitar fyrir blindflug á kortunum og viðamikið safn gönguleiða, þar sem  í eru yfir 1400 gönguleiðir víðsvegar um landið og fleiri þættir sem nýtast þyrlusveitinni sérstaklega. 

Vinna við kortagrunnin hefur staðið yfir í langan tíma og munu Ískort verða Landhelgisgæslunni innan handar varðandi uppfærslur og nýjungar í kortagrunninum. Þakkar Landhelgisgæslan Ískortum fyrir gott samstarf við hönnun kortanna.

Sjá nánar á heimasíðu Ískorta


Auðunn F. Kristinsson, verkefnisstjóri aðgerðasviðs, Marteinn S. Sigurðsson framkvæmdastjóri Ískorta, Henning Þ. Aðalmundssyni, stýrimaður/sigmaður og Sigurður Heiðar Wiium, yfirflugstjóri við afhendinguna.


Fjarskiptamöstur gerð áberandi í kortunum.Mynd Ískort.


Raflínur gerðar mjög áberandi í kortinu, og aðgreining gerð á milli bæjarlína og burðarlína. Mynd Ískort.