Leki kom að bát í mynni Reyðarfjarðar

Þriðjudagur 8. apríl 2014

Landhelgisgæslunni barst kl. 15:06 aðstoðarbeiðni á rás 16, frá 7 tonna fiskibát sem mikill leki hafði komið að í mynni Reyðarfjarðar.  Einn maður var um borð  og ágætt veður á svæðinu.

Samstundis voru kallaðar út sjóbjörgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Austurlandi, þ.a.m. björgunarskipið Hafbjörg á Neskaupsstað.  Einnig var kallaður út dráttarbáturinn Vöttur á Reyðarfirði og þyrla Landhelgisgæslunnar. Kallað var til nálægra skipa og báta og þau beðin um að halda til aðstoðar.

Um kl. 15:35 komu upplýsingar frá bátnum um að hann virtist geta siglt fyrir eigin vélarafli til hafnar og kl. 15:45 kom harðbotna björgunarbáturinn Alfreð Guðnason frá Eskifirði að bátnum og virðast aðstæður vera orðnar betri. Fylgdi hann bátnum til hafnar.