Þyrla LHG og björgunarsveitir kallaðar út vegna vélarvana báts
Sunnudagur 13. apríl 2014
Landhelgisgæslunni barst klukkan þrjú í nótt beiðni um aðstoð um neyðar & uppkallsrásina VHF-CH 16 frá átta tonna fiskibát með tvo menn um borð. Var báturinn vélarvana um 1,6 sjómílur frá landi á Fljótavík, norðan Straumness. Áætlaði skipstjóri að báturinn yrði kominn í strand eftir u.þ.b. 40 mínútur, miðað við rekhraða. Kallaðar voru út Björgunarsveitir á Hnífsdal, Bolungarvík og Ísafirði, sem og þyrla Landhelgisgæslunnar. Einnig var haft samband við báta á svæðinu og héldu þeir af stað áleiðis að bátnum, sá nálægasti var í um 30 mínútna fjarlægð.
Tuttugu mínútum síðar eða kl. 03:20 var fiskibáturinn búinn að ná aðalvél í gang á ný, og hélt til að byrja með fjær landi, en sigldi svo áleiðis til Ísafjarðar undir eigin vélarafli. Kl. 03:39 hafði báturinn afþakkað frekari aðstoð, og voru björgunarsveitir afturkallaðar, sem og þyrla Landhelgisgæslunnar.
Mynd Árni Sæberg