Umfangsmikil leitar- og björgunaræfing á Breiðafirði

Miðvikudagur 14. maí 2014

Í gær var haldin umfangsmikil leitar og björgunar samæfing á Breiðafirði milli eininga Landhelgisgæslunnar og Bjargar, björgunarskips Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Rifi. Æfingin með því að björgunareiningar voru kallaðar út vegna leitar að fiskibát, með fjóra menn um borð, sem tilkynnti til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar að kominn væri leki að bátnum. Fjórir menn voru um borð og var báturinn staðsettur við Selsker á Breiðafirði. Þegar aftur var haft samband við bátinn náðist ekki í hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Landhelgisgæslan kallaði út flugvélina TF-SIF, þyrlurnar TF-LIF og TF-SYN og eftirlits- og sjómælingaskipið Baldur. Einnig var björgunarskipið Björg frá Rifi beðið um að taka þátt í leitinni. Vettvangsstjórn var um borð í Baldri en stjórn leitar í lofti um borð í TF-SIF. Loftför skiptu á milli sín leitarsvæðum en þegar björgunarbáturinn fannst var svæðið minnkað og leitareiningum beint þangað. Æfingin gekk vel og voru þátttakendur sammála um gagnsemi slíkrar æfingar.  


Eftirlits- og sjómælingaskipið Baldur


Baldur við leit ásamt Björgu, björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Rifi.


TF-SIF kastar út björgunarbát


Björgunarbáturinn fundinn


Baldur á siglingu


Þyrla LHG við leit, myndin tekin úr eftirlitsbúnaði TF-SIF


Selsker þar sem "báturinn" var staddur þegar síðast heyrðist frá honum. 
Myndin tekin úr eftirlitsbúnaði TF-SIF