Þyrla kölluð út í nótt til leitar að ferðamönnum

Mánudagur 19. maí 2014

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 02:59  í nótt að beiðni fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar til að taka þátt í leit að erlendum ferðamönnum. Bílaleigubíll þeirra fannst við Hraunfossa og var hann skilinn eftir eins og viðkomandi hefði farið í stutta gönguferð. Búið var að reyna að ná í gsm síma viðkomandi en án árangurs. 

Leit þyrlunnar hófst við Borgarfjarðarbrúnna og var flogið sem leið lá að Hraunfossum. Þegar komið var að fossunum var leitin skipulögð með þeim hætti að leitað var upp í vind frá Hvítá í 40 gráður að læk sem er þar norður af. Leitað var samsíða leitarferlum til austurs með ca. 0,1 sjómílna millibili. Klukkan 05:00 barst tilkynning til stjórnstöðvar um að mennirnir væru komnir fram. Höfðu þeir tjaldað við ánna og vaknað við hávaðann frá þyrlunni. Hélt þyrlan þá beina leið í bæinn.